Útgefin verk
HÓTEL ANÍTA EKBERG
“Hótel Aníta Ekberg er skemmtilegt smásagnasafn sem reiðir sig á forvitni okkar um samferðafólk. Sögurnar eru allt frá því að vera gamansamar yfir í að vera sorglegar og
verða ágætis minnisvarði um vordaga 2020.”
Lestrarklefinn
Sterkasta kona í heimi, Samfeðra og Hótel Aníta Ekberg. Steinunn G. Helgadóttir rithöfundur rífur mann upp úr sóttóttadoða-sleni með frásagnarfimi og húmor. Var að ljúka við Hótel Anítu Ekberg (sem þær systur, Steinunn og Helga skrifa saman) og bara TAKK skáld og aðrir listamenn fyrir að gera tilveruna betri!
Elísabet Arnardóttir·
Smásagnasafnið Hótel Aníta Ekberg inniheldur ellefu smásögur, sex eftir Steinunni G.
Helgadóttur, fimm eftir Helgu S. Helgadóttur og meðhöfundurinn Sigga Björg bætir myndum við þær allar.
Allar sögurnar segja frá litríkum persónum sem fyrir tilviljun lokuðust inni í sóttkví á þessu ákveðna hóteli. Þetta eru meðal annars aldraðar vinkonur frá Bretlandi, þriggja manna fjölskylda frá Hollandi, glæpasagnahöfundur, líklega frá Noregi og ung kona sem er matar–áhrifavaldur á Instagram vegna óbrigðuls bragð- og lyktarskyns síns. Ekki má gleyma dyraverðinum sem þarf að henda reiður á að allt þetta fólk hegði sér í samræmi við sóttvarnarreglur sem enginn veit nákvæmlega hvernig eru enda faraldurinn enn eitthvað alveg nýtt í heiminum.
Eins og kannski má ímynda sér eru þetta nokkuð súrrealískar sögur og höfundarnir gefa sannarlega ímyndunarafli sínu um samferðafólkið á hótelinu jafnt sem sig sjálfar lausan tauminn enda hvað getur ekki gerst á svo fordæmalausum tímum.
Bókin er myndskreytt af myndlistarmanninum Siggu Björg Sigurðardóttur sem gefur hverri
sögu sína einstöku mynd.
STERKASTA KONA Í HEIMI
Systkinin Gunnhildur og Eiður eru valdalausir samherjar í fjölskyldu þar sem foreldrarnir eru aldrei glaðir samtímis. Þegar fjölskyldan sundrast eru systkinin skilin að sem litar allt þeirra líf – Eiður verður friðsamur hugsjónamaður sem þráir að láta gott af sér leiða en Gunnhildur, sem býr yfir ofurkröftum þótt hún flíki þeim ekki, menntar sig í förðun og verður eftirsóttur líksnyrtir.
Sagnagáfa Steinunnar G. Helgadóttur er ótvíræð. Lesendur Radda úr húsi loftskeytamannsins og Samfeðra kannast vel við að flissa á einni síðu, klökkna á þeirri næstu og vaka alveg óvart allt of lengi fram eftir við lestur. Sterkasta kona í heimi er áhrifamikil fjölskyldusaga um leitina að hamingjunni, breyskleika og óvænta krafta.
Steinunn G. Helgadóttir er löngu búin að geta sér gott orð fyrir líflegan stíl og áhugaverða persónusköpun en hún hlaut Fjöruverðlaunin árið 2017 fyrir skáldsöguna Raddir úr húsi loftskeytamanns. Henni bregst ekki bogalistin í þessari bráðskemmtilegu bók Sterkustu konu í heimi sem fjallar um systkinin Gunnhildi og Eiði. Eiður gerist aðgerðarsinni og vegan kokkur en Gunnhildur verður vinsæll líksnyrtir sem spjallar fjálglega við líkin og aðstandendur um sögu þeirra, auk þess sem hún er með ofurkrafta. Skáldsagan geymir ádeilu í bland við húmor og er sérlega skemmtilega unnið með dauðann í sögunni.
Jóna Guðbjörg Torfadóttir∙ / Skáld.is
„Afskaplega vel skrifuð og læsileg bók um stöðu, styrk og veikleika kvenna og karla.“
Brynhildur Björnsdóttir / Fréttablaðið
Í Samfeðra vinnur Steinunn G. Helgadóttir áfram með einn af þráðunum snjöllu úr Röddum í húsi loftskeytamannsins. Hér fáum við heildarmynd af kostulegri ferð Janusar um landið í leit að hálfsystkynum sínum. Aðallega fáum við samt sýnisbók í hugarflug Steinunnar og hugkvæmni í vali á sjónarhornum. Og fjölbreytta sagnaskemmtun sem miðlar tíðaranda áttunda áratugarins, húmor, hlýju, dulúð og hryllingi. Það verður spennandi að sjá hvernig augljósir og frumlegir hæfileikar Steinunnar þroskast og hvað gerist þegar þeim verður beitt á annað efni.
-Þorgeir Tryggvason
“Af og til fannst mér Steinunn taka mig á staði sem voru einhvern veginn umluktir glitrandi þoku. Einhvern veginn í öðrum heimi þar sem allir eru örlítið furðulegir. En mér finnst bókin líka fanga fjölbreytileika mannlífsins á einstakan hátt. Hver og ein persóna er eins og hún er og það er ástæða fyrir því og ef Steinunn gaf manni ekki upp ástæðuna í einni setningu þá getur maður lesið það á milli línanna eða bara skáldað í eyðurnar …
Það var unun að lesa Samfeðra og finna öll hálfsystkini Janusar og dvelja með honum á alls konar mismunandi heimilum.”
-Katrín Lilja / Lestrarklefinn
SAMFEÐRA
Við lát móður sinnar kemst Janus að því að hann á ellefu hálfsystkini á svipuðu reki víðsvegar um landið. Þjóðhátíðarárið 1974 leggur hann upp í hringferð til að kynnast þessu ókunna, náskylda fólki. Hvernig bregðast systkinin við því að hitta bróður sem þau hafa aldrei átt? Mun Janus eignast þá fjölskyldu sem hann hefur alltaf vantað?
Samfeðra er listilega spunnin fjölskyldusaga í gráglettnum stíl þar sem sjónum er beint að fólki sem sést ekki oft í skáldsögum en er samt furðu kunnuglegt.
„Í Samfeðra beitir Steinunn heillandi frásagnarhætti með ólíkum sjónarhornum og reyndar einnig mismunandi sögumönnum. Auk þess að koma lesandanum í sífellu á óvart með það hvaða persóna er þungamiðja hvers kafla fyrir sig.“
-Magnús Guðmundsson / Fréttablaðið
„Steinunn fer hér óneitanlega vogaða og athyglisverða leið, við að vinna áfram úr einni meginsagna fyrri skáldsögu sinnar. Það gengur að mörgu leyti vel upp og verður spennandi að sjá í hvaða ferðalag hún leggur næst, því sem prósahöfundur hefur hún fundið sína rödd og hefur ótvíræða hæfileika.“
-Einar Falur Ingólfsson / Morgunblaðið
Fyrir nokkrum misserum heilluðu Raddir úr húsi loftskeytamannsins mig upp úr skónum og sú nýja olli ekki vonbrigðum – þvert á móti. Samfeðra er brilliant bók eftir einn áhugaverðasta og best skrifandi höfund sem ég hef lesið lengi.“
-Aðalsteinn Svanur Sigfússon
"með prívat tón og galdur sem er afskaplega skemmtilegur""með dásamlega kímnigáfu"
-Kolbrún Bergþórsdóttir / Kiljan
"Mikill húmor!"
-Egill Helgason / Kiljan
RADDIR ÚR HÚSI LOFTSKEYTA MANNSINS
Ungur maður ætlar að leita uppi ellefu hálfsystkin sem öll eru fædd á sama árinu, ástfælinn bóksali gengur aftur og fylgist með nýjum lesendum, ólíkar systur reka saman sjoppu í Þingholtunum á meðan óreglumenn krunka sig saman á nýju tilvistarsviði.
Einmana loftskeytamaður er í sambandi á öldum ljósvakans en skrifar skáldverk þess á milli. Hann fyllist tortryggni þegar aðrir rithöfundar eru á yfirskilvitlegan hátt á undan honum að koma út bókum hans. Með aðstoð vísindanna tekst honum að snúa vörn í sókn.
Steinunn G. Helgadóttir myndlistarkona hefur getið sér gott orð fyrir ljóðabækur sínar. Hér segir hún sögur loftskeytamannsins og fangar jafnframt íslenskan veruleika í fortíð, nútíð og framtíð.
”Ég lifði mig í söguheiminn sem höfundur bjó til og hreifst af eða fékk ýmugust á persónunum … er nýstárleg í íslensku samhengi bæði að formi og innihaldi …
Þrátt fyrir að persónurnar séu margar þá voru þær allar skýrar og vel aðskildar. Þær eru dregnar upp með natni, nákvæmni og alveg hræðslulaust. Þetta fólk fær bara að vera það sem það er.”
-Kári Túliníus / Bókmenntaspjall, Stína, tímarit um bókmenntir og lestur,
„Ég dáist að stíl Steinunnar og því hvernig hún náði að láta mér verða annt um hverja og eina persónu. Lesandi verður svo náinn persónunum, sem eru eiginlega allar einhvers konar sérvitringar. Það var stundum erfitt að fylgjast með hvar í tímanum maður var staddur, en það skipti eiginlega ekki máli. Hver saga er svo dásamlega einlæg að það var unun að lesa. Hver saga var líka nokkuð þungmelt og ég eyddi lengri tíma en ella í að lesa bókina af því að ég var einfaldlega með hugann við persónu síðustu sögu og ekki tilbúin að skilja við hana. Við heyrum af tvíburasystrunum sem reka sjoppu með móður sinni, bóksala á ferðalagi, einrænum loftskeytamanni, ungum manni í leit að ellefu hálfsystkinum sínum, bræðrunum Nonna og Manna sem flytja til Noregs og fleiri persónum.
Ég mæli hiklaust með Raddir úr húsi loftskeytamannsins fyrir þá sem vilja næla sér í saðsama konfektmola í amstri dagsins. Hver saga er einmitt nægilega stutt til að geta lesið í kaffipásum eða strætó eða bara hvar sem maður finnur smá lausa stund. Maður tekur svo eitthvað með sér úr bókinni í hvert sinn, eitthvað til að gæla við í huganum.“
★★★★★
-Katrín Lilja / Lestrarklefinn
„Skáldverkið Raddir úr húsi loftskeytamannsins eftir Steinunni G. Helgadóttur geymir fjölradda sagnaheim um sérstakar en þó trúverðugar manneskjur sem reyna að mynda tengsl í oft einmanalegri tilveru. Hér skarast líf og farast á mis, fínlegir þræðir fléttast saman. Textinn er uppfullur af mennsku og ber vott um næmi fyrir margbreytileika sálarlífsins. Höfundur leikur sér með ólík sjónarhorn og hversdagsleikinn og fantasían mætast með óvæntum hætti. Með flæðandi, heillandi stíl fangar höfundurinn skáldskapinn í tilverunni. Frásagnirnar eru ýmist sorglegar, spaugilegar eða þrungnar undirliggjandi óhugnaði, en höfundur leikur áreynslulaust á alla þessa strengi. Verðlaunabókin er samspil radda úr fortíð, nútíð og framtíð sem snerta við lesandanum.“
-Rökstuðningur dómnefnda Fjöruverðlauna:
Frá dómnefnd í flokki fagurbókmennta
„Steinunn skrifar hér áhugaverða bók sem minnir stundum á gallerí. Skemmtilegt getur verið að grípa í bókina og lesa nokkra kafla óháð efni sem á undan kom því kaflarnir lifa sjálfstæðu lífi. Það er oftast eitthvað nýtt sem bíður manns, eins og þegar rölt er um sýningarsal ólíkra málverka … Bókin er auðlesin og þægileg …“
-Kristinn Pálsson / Hugrás
Þegar Steinunn G. Helgadóttir sendi frá sér skáldverkið Raddir úr húsi loftskeytamannsins árið 2016 varð ljóst að ný og spennandi rödd hafði kveðið sér hljóðs í íslenskum bók-menntum. Tveimur árum síðar kom bókin Samfeðra, sjálfstætt framhald fyrstu bókarinnar, og nýliðið haust sendi hún svo frá sér skáldsöguna Sterkasta kona í heimi. Með þessum þremur skáldverkum hefur Steinunn sýnt fram á að hún er meðal hugmyndaríkustu og skemmtilegustu prósahöfunda samtímans. „Veröldin er full af ónotuðum sögum,“ segir á bls. 21 í fyrstu bókinni og eru orðin lögð í munn loftskeytamannsins sem notar heimatilbúna tækni til að veiða sögur og senda þær frá sér í formi margra ólíkra radda sem berast lesendum bókarinnar. Sjálf er Steinunn söguveiðimaður af bestu gerð og kann þá list að koma feng sínum áfram til söguþyrstra lesenda.
-Soffía Auður Birgisdóttir / Skáld.is
”Raddir úr húsi loftskeytamannsins er haganlega fléttuð bók þar sem söguþræðir eru spunnir sundur og saman á heillandi hátt. Í hverri sögu má finna persónu eða vísun úr annarri sögu sem opnar söguheiminn og býr til marglaga frásögn þar sem í raun má segja að hver saga sé hluti af hinum, auki skilning á atburðarás en ekki síður persónunum sem fá fleiri víddir eftir því sem þær eru sýndar frá fleiri sjónarhornum …
… og greinilegt að höfundurinn hefur vandað til verka. Stíllinn er léttur og auðlesinn, myndirnar skýrt dregnar af höfundi sem ekki fer á milli mála að er myndlistarkona líka, persónurnar heillandi og sögurnar þeirra geta af sér nýjar sögur í huga lesandans. Þessa bók má lesa hægt, fletta fram og til baka og fá þannig dýpri skilning á persónum, framvindu og jafnvel sínu eigin lífi.
Niðurstaða: Falleg bók sem er hægt að lesa aftur og aftur og finna nýja fleti á fólki og sögum, jafnvel sínum eigin.”
-Brynhildur Björnsdóttir / Fréttablaðið
„Óhemju áhugavert og frumlegt verk. Það kemur einhvernveginn á mann alveg úr óvæntum áttum … Mjög athyglisverð … Margar af þessum sögum eru mjög skemmtilegar … Það er mikil hugmyndaauðgi og frásagnargleði í þessu.“
-Egill Helgason / Kiljan
„Frábært persónugallerí … Stíllinn er bara svo skemmtilegur. Hún er bráðfyndin … Ég var mjög ánægð með þessa bók … Það skemmtilegasta eru persónurnar.“
-Sunna Dís Másdóttir / Kiljan
„Það var hrein unun að lesa þessa skemmtilegu bók … Steinunn hefur afar gott vald á tungumálinu og býr yfir góðum húmor, hægt er að lesa sögurnar aftur og aftur og finna eitthvað nýtt í hvert sinn.“
-Guðríður Haraldsdóttir / Vikan
SKULDUNAUTAR
... knöpp notkun tungumálsins skilar mörgum áhrifamiklum svipmyndum í þessari ljóðabók. Steinunn býr yfir hæfileika til að fanga algjörlega andrúmsloft andartaksins í örfáum orðum, eins og í eftirfarandi línum:
Frost
við hliðið
sót á ísnum
exi heggur
út dagana
inn kyrrðina
blaðið er
það mýksta
sem hefur
snert hann (15)
Steinunn notar ekki aðeins myndmál til að miðla tilfinningu andartaksins til lesandans, það er mikill rytmi í ljóðum hennar. Í ljóðlínunum hér að ofan verða miðlínurnar tvær eins og axarþytur, eins og taktur axarblaðsins upp og niður, eins og skörp taktbreyting sem stöðvar hraðan rytma lysingarinnar á frosti, sóti, ís og exi og færir okkur hæga mýkt. Steinunn notar einnig endurtekningar á áhrifamikinn hátt til að koma undirliggjandi hrynjandi til skila, marka áherslur og magna upp tilfinningar sem ljóðmyndirnar vekja.
-Auður Aðalsteinsdóttir/ Spássían, vor/sumar 2013
KAFBÁTAKÓRINN
”Kyrrlátt yfirborð einkennir fyrstu ljóðabók Steinunnar G. Helgadóttir, Kafbátakórinn. Fyrsta myndin sem birtist er af kafbátum sem koma á kvöldin ” úr þykku/grænu myrkrinu” (5) og að sökkva sér ofan í þessi ljóð er stundum eins og að mara hljóðlátlega í hálfu kafi, þar sem ljósið er ætíð dempað, djúpt undir og þungir straumar toga í. Við upplifum bið og kyrrstöðu, skip sem sofa, ryk sem svífur.”
-Auður Aðalsteinsdóttir/ Spássían
Úr rökstuðningi dómnefndar (Gerðar Kristnýjar, ljóðskálds og rithöfundar, Jóns Yngva Jóhannssonar bókmenntafræðings og Sigurðar Pálssonar, ljóðskálds og rithöfundar):
”Steinunn bregður upp áhrifamiklum myndum af síðustu ferð rússneska kafbátsins Kúrsk sem fórst með allri áhöfn í Barentshafi árið 2000. „Höfundur kann vel þá vandasömu list að ljúka ljóði. Lokalínurnar tengjast upphafslínunni með sterku myndmáli og í lokaorðunum eru örlög skipverjanna gefin í skyn með lágstemmdum en áhrifaríkum hætti.“
-Ljóðstafur Jóns úr Vör 2011 fyrir ljóðið Kaf.
Kaf
Sólin sýsti bara upp
yfirborðið
þegar Kursk hvarf
í djúpið.
Hjátrúarfullar eiginkonur
sátu heima.
Þorðu ekki að kveðja.
Sjónpípan er
hettuklædd slanga
og spegilauga skoðar
hafflötinn.
Það er
Íshröngl úti
Inni er
móða sólbekkir
sex metra sundlaug
sána tafl fiskabúr
kvikmyndir pottaplöntur
köttur ruggustólar.
Suðrænar strendur og
furuskógar
í myndvarpanum.
Eldkúla
og að lokum
tíminn.